top of page

Skilmálar:

1. Skilgreiningar:

Leigusali: My Media 4 you ehf. kt. 631121-3220

Leigutaki: Sá einstaklingur og/eða fyrirtæki sem fær að láni búnað hjá leigusala.

Búnaður í þessum skilmálum er hverskonar tæki eða hlutir sem leigusali lætur leigutaka í té.

 

2. Leiguskilmálar:

2.1 Nema annað sé sérstaklega tekið fram skal stysti leigutími vera einn dagur og miðast upphaf leigu við dagsetningu afhendingar í leigusamningi. Síðasti dagur leigu telst sá dagur sem getið er sem skiladags í leigusamningi. Sé búnaði ekki skilað innan hins umsamda tíma skal leigutaki greiða fulla dagleigu fyrir hvern byrjaðan dag, auk alls kostnaðar sem leigusali kann að verða fyrir vegna þess að búnaðurinn stendur ekki öðrum viðskiptavinum til reiðu á réttum tíma.

 

2.2 Leigutaki skal vera lögráða einstaklingur eða eftir atvikum félag eða stofnun. Sá sem skuldbindur félag eða stofnun ábyrgist að hafa til þess fullt umboð og skal jafnan sýna fram á umboð sitt að kröfu leigusala, jafnframt því sem hann tekur persónulega ábyrgð á leigusamningi. Komi í ljós að vafi leiki á umboð aðila þess er skuldbindur félag eða stofnun, er leigusala heimilt að taka hinn leigða búnað í sína vörslu á ný fyrirvaralaust og án allrar bótaskyldu hvenær sem er á leigutímanum.

 

2.3 Ef óviðráðanlegar ytri aðstæður valda því að leigusala verður ómögulegt að uppfylla skyldur sínar skv. leigusamningi, skal litið svo á að þær séu niður fallnar þar til mögulegt verður að efna þær á ný, sé þess nokkur kostur.

 

2.4 Mál sem kunna að rísa vegna samnings þessa skal höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

3. Ábyrgð leigutaka:

3.1 Ábyrgð leigutaka á hinum leigða búnaði hefst við móttöku hans og lýkur þegar búnaði hefur sannanlega verið skilað til leigusala. Búnaður í flutningi er á ábyrgð leigutaka.

 

3.2 Ef leigður búnaður týnist eða skemmist að því marki að ekki svari kostnaði, að mati leigusala, að gera við hann, ábyrgist leigutaki að greiða leigusala fullt endurkaupsverð hlutarins án tillits til aldurs, slits eða afskrifta. Þar til nýr búnaður hefur verið útvegaður í stað þess týnda eða eyðilagða skal leigutaki borga fulla leigu, auk alls afleidds tjóns sem leigusali kann að verða fyrir vegna eyðileggingar/hvarfs hins leigða búnaðar.

 

3.3 Leigutaki má ekki selja, leigja, veðsetja eða með nokkrum öðrum hætti afsala sér umráðum hins leigða búnaðar.

 

3.4 Leigutaki ábyrgist skaðleysi leigusala af hverskonar kröfum sem leigutaki kann að verða fyrir af hálfu þriðja aðila í tengslum við eða vegna leigu á búnaði til leigutaka. Ef hinn leigði búnaður tengist með einhverjum hætti slysi sem veldur tjóni á búnaðinum, öðrum eignum eða líkamstjóni skal leigutaki tilkynna leigusala það án tafar sem og viðeigandi yfirvöldum.

 

3.5 Leigutaki ábyrgist sérstaklega að hann muni ekki nýta búnað frá leigusala til lögbrota af neinu tagi, þar með talið en ekki bundið við, brot á löggjöf um höfunda- og hugverkarétt. Leigutaki ábyrgist jafnframt greiðslur hverskonar leyfisgjalda og höfundarréttargjalda sem af notkun búnaðarins kann að leiða.

 

3.6 Leigutaka er óheimilt að nota hinn leigða búnað á öðrum stöðum en þeim sem leigusali hefur samþykkt. Ef nota á búnað utandyra skal leigutaki útvega veðurvarnir á sinn kostnað, t.d. vatns- og vindhelt tjald yfir búnað.

 

3.7 Leigutaki ábyrgist að þeir sem komi til með að vinna með eða við hinn leigða búnað skuli hafa fengið til þess hæfilegar leiðbeiningar og að jafnan sé nauðsynleg sérþekking til staðar til uppsetningar og notkunar hins leigða búnaðar.

 

3.8 Leigutaki ábyrgist að notaður sé réttur rafstraumur, rafspenna og jarðtenging í tengslum við búnað. Ef leigutaki hyggst nota hinn leigða búnað í tengslum við önnur tæki skal hann ganga úr skugga um að um samhæfðan búnað sé að ræða, sem ætlaður er til notkunar með búnaði leigusala.

 

3.9 Leigutaki skal tryggja hinn leigða búnað til samræmis við ofangreinda ábyrgð nema annað sé tekið fram.

 

3.10 Ef fullnaðaruppgjör til leigusala vegna tjóns á leigðum búnaði hefur ekki farið fram skal öllum hugsanlegum greiðslum, sem leigutaki kann að móttaka frá tryggingafélagi eða öðrum þriðja aðila, til fullnustu á skaðabótakröfu vegna tjóns á hinum leigðu tækjum, haldið sérgreindum og greiðast til leigusala samkvæmt ofangreindri ábyrgð. Ef fullnaðaruppgjör til leigusala vegna tjóns á leigðum búnaði hefur ekki farið fram er leigutaka jafnframt óheimilt að semja um bótafjárhæðir án samþykkis leigusala.

 

4. Viðhald búnaðar og tilkynningaskylda:

4.1 Leigutaki ábyrgist að gengið sé vel um hinn leigða búnað og honum haldið hreinum meðan á leigutíma stendur. Leigutaki ábyrgist að ávallt séu notaðar við flutning og geymslu á hinum leigða búnaði nauðsynlegar hlífar og umbúðir. Leigutaki skal greiða allan þann kostnað sem leigusali kann að verða fyrir vegna slæms frágangs á búnaði eða bilana sem leiða af slæmri umgengni við leigðan búnað, þar með talið fullt leigugjald á meðan á frágangi eða viðgerðum stendur sem og bætur vegna afleidds tjóns svo sem þar sem tækin standa ekki öðrum leigutökum til reiðu.

 

4.2 Hverskonar bilanir á búnaðinum skal leigutaki tilkynna leigusala án tafar. Leigutaki má ekki undir neinum kringumstæðum reyna að gera við bilanir á hinum leigða búnaði án þess að hafa fengið til þess sérstakt leyfi leigusala.

 

4.3 Kostnaður vegna vinnu og varahluta við framkvæmd eðlilegs viðhalds fellur í öllum tilvikum á leigusala, annar viðgerðarkostnaður, þar með talið vegna brota á skilmálum þessum eða leigusamningi, fellur í öllum tilvikum á leigutaka.

bottom of page